Fjas og fleira ;)

mánudagur, september 05, 2005

Jæja, þá er tími fyrir smá frásögn...
Þegar ég gekk upp á sviðið í Menntaskólanum við Hamrahlíð hafði ég fulla trú á sjálfri mér. Ég gat allt. Þetta var stundin sem ég var búin að stefna að í fjögur og hálft ár og loksins var hún runnin upp!! Ég var orðin stúdent! Fyrir mér var þetta svo svakalega stórt og ég var svo óskaplega stolt af sjálfri mér að hafa afrekað þetta mikla þrekvirki að ég held að ég hafi hækkað um svona 15 cm þarna á sviðinu... Ég gekk til rektorsins sem heldur utan um gang þessarar undursamlegu menntastofnunnar sem hafði tekið á móti mér fyrir ekki svo löngu með loforðum um menntun og blómlegt félagslíf og þar sem ég hafði blómstrað í þá manneskju sem ég er í dag. Að byrja í MH er með því skelfilegasta sem ég hef gert í lífinu, en ég hlakkaði samt alltaf til að fá að reyna meira og vinna meira í átt að því takmarki sem ég náði síðan um jólin 2004. Mér hefur aldrei liðið eins vel í neinum skóla eins og þar, þar náði ég að losa mig við feimnina sem hafði hrjáð mig í mörg ár og ég lærði að kynnast nýju fólki. Þar eignaðist ég alveg ótrúlega mikið af mjög góðum vinum og gleymdi mér algerlega á tímabili að ég væri í skóla þarna. En að sjálfsögðu rifjaðist það nú upp fyrir mér áður en langt um leið. Ég fór síðan að vinna á leikskóla eftir útskriftina og mér fannst ég læra alveg ótrúlega mikið af því að vinna á svona stað, það er skóli lífsins að fá að umgangast svona kríli og vera nógu heppinn að fá að eiga þátt í því að móta hver þau verða og gefa þeim gott veganesti út í lífið sem bíður þeirra... Í sumar kom síðan að því að ákveða hvað ég ætlaði að gera meira og mér datt í hug að kynna mér uppeldis- og menntunarfræði. Það virtist vera nám sem tengdist mínu áhugasviði, þ.e. uppeldi og ummönnun barna o.þ.h. og ég ákvað að láta á það reyna og sækja um þessa braut í náminu. Og sumarið leið og allt í einu var komið haust og skólinn að byrja og í mig settist kvíði, alveg gífurlegur bítandi kvíði yfir þessu öllu. Mér þótti ég ekki nógu ,,stór" til að fara í háskóla... En jæja, ég fór á kynninguna á þessu öllu saman og leist nú örlítið betur á þetta allt saman. Um kvöldið brotnaði það allt niður og kvíðinn fyrir fyrsta deginum í skólanum var nánast lamandi, það skildi bara enginn hvað gekk eiginlega að mér. Daginn eftir mætti ég í skólann í fyrsta skipti og það var alls ekki hræðilegt, reyndar var það bara ekkert hræðilegt en innst inni vissi ég að ástæðan fyrir því að mér fannst þetta allt svona skelfilegt var sú að það var önnur braut sem mig langaði meira til að prófa, táknmálsfræðin. Ég stóð mig oft að því að óska þess að hafa valið það í staðinn en ýtti því nú samt frá mér í þeirri von að það myndi bara líða hjá, en fyrir svona þremur dögum rann það upp fyrir mér að það myndi hreinlega ekki gerast og því meira sem ég sá af því námi sem ég var í því meira kom upp sú þrá að gera eitthvað annað því mér fannst þetta alls ekki það sem ég var að óska eftir. Ég er nefnilega búin að átta mig á því að ég hef svolítið einskorðað mig við það að ég hef gaman af börnum og brennandi áhuga á öllu sem þau snertir, ég hef nefnilega líka önnur áhugamál og mig langar mikið til að láta reyna á að rækta þau og sjá hvort ég geti ekki þroskast með þeim eins og áhuga mínum á uppeldi. Þess vegna tók ég ákvörðun í gær og fór í dag í viðtal til námsráðgjafa og lýsti fyrir henni því sem ég hef verið að hugsa og spekúlera og fékk ráðleggingar hjá henni um hvað ég ætti að gera í minni stöðu. Síðan tók ég stóra ákvörðun og er núna skráður nemandi í táknmálsfræði við Háskóla Íslands. Þessi ákvörðun var mjög stór, en ég verð að viðurkenna að ég er alveg ljómandi ánægð með hana og horfi björtum augum fram á veginn og hlakka til af öllu hjarta að mæta í skólann og takast á við þetta viðfangsefni því mér finnst það alveg einstaklega áhugavert og spennandi og gæti alveg hugsað mér að starfa við þetta í framtíðinni. Það sem skiptir höfuðmáli í lífinu er að reyna eftir bestu getu að gera það sem mann langar til, lífið er allt of stutt til að láta það framhjá sér fara og gera ekki það sem hjartað virkilega þráir að gera. Þannig held ég að maður geti lifað hamingjusömu lífi, koma vel fram við fólk, reyna að vera hreinskilin og sýna öðrum virðingu og gera það sem mann langar virkilega að gera...
Er þetta tóm tjara hjá mér?

6 Comments:

At 3:39 e.h., Blogger Karo said...

Hahhaha... Já rithöfundur á táknmáli!!! :D Ég skal íhuga þetta vandlega :D

 
At 10:22 e.h., Blogger Anna Katrin said...

heheh ;) alltaf má treista á ykkur frænkur að vera með hressleikan ;) en bara flott hjá þér! good luck!

 
At 12:11 e.h., Blogger Draslrun said...

Frábært hjá þér Karó mín :) Ég er alveg sammála, maður á alltaf að gera það sem maður innst inni vill gera :) Þá líður manni svo miklu miklu betur :D

 
At 12:06 e.h., Blogger Runa Vala said...

Svolítið væmið... en meikar alveg rosalega mikið sens... Ég hlakka til að byrja í táknmálsfræðinni næsta haust.

 
At 3:33 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

stundum kemur eitthvað væmið þegar maður talar frá hjartanu, þannig er lífið :)

 
At 3:04 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Your blog keeps getting better and better! Your older articles are not as good as newer ones you have a lot more creativity and originality now keep it up!

 

Skrifa ummæli

<< Home